Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar MAST um vörslusviptingu búfénaðar

Úrskurður

Þann 28. mars 2023 barst ráðuneytinu erindi frá kæranda þar sem kærð er ákvörðun Matvælastofnunar (MAST), dags. 4. janúar 2023 um að vörslusvipta kæranda búfénaði sínum og færa hann til slátrunar með vísan til 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013.

Kröfur

Þess er krafist að ákvörðun stofnunarinnar, sem tekin var á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013, verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að viðurkennt verði að förgun á öllu búfé kæranda hafi verið ólögmæt stjórnvaldsaðgerð.

Málsatvik

Kærandi hefur stundað búskap í marga áratugi, lengst af sem kúabóndi en síðustu ár með nokkur hross, sauðfé og hænur, eftir að kærandi hætti mjólkurframleiðslu. Um miðjan desember 2022 varð kærandi fyrir slysi og dvaldist í kjölfar þess á hjúkrunar- og dvalarheimili fram til 22. janúar 2023, þegar hún flutti aftur á heimili sitt. Kærandi býr ein á bænum og var í ársbyrjun með fjörutíu sauðfjár, tíu nautgripi/kálfa og sex hross auk nokkurra hænsnfugla.

Þann 21. desember 2022 fékk MAST ábendingu símleiðis um að kærandi væri komin á hjúkrunarheimili og væri mögulega ekki hæf til að sinna skeppnum að nýju ef og þegar hún sneri aftur. Í framhaldi af þessari ábendingu hafði MAST samband við sveitarstjóra Ásahrepps og kannaði hvort aðstoð vantaði við að tryggja umhirðu á bænum. Var þá upplýst að kærandi hafði útvegað aðila til leysa sig af fram til 2. janúar 2023 og því ljóst að um tímabundna lausn væri um að ræða.

Í málinu liggja fyrir tvær eftirlitsskýrslur um dýravelferð á bænum. Fyrri skýrslan er dagsett 22. desember 2022 en þar eru skráð samtals fimm frávik, þar af tvö alvarleg. Síðari skýrslan er dagsett 3. janúar 2023, en þar eru sömu frávikin skráð.

Þann 4. janúar 2023 fundaði MAST vegna stöðunnar á bænum. Á fundinum var upplýst að sá sem sinnt hafði búskapnum fyrir kæranda hefði ekki lengur tök á því. Það var mat stofnunarinnar að ekki væru fyrir hendi aðilar sem gætu tryggt velferð dýranna. Niðurstaða fundarins var sú að í ljósi þess að enginn væri að sinna dýrunum á meðan kærandi var á heilbrigðisstofnun og kæranda hafi ekki tekist að tilnefna aðila til að taka að sér skyldur samkvæmt lögum um velferð dýra, að vörslusvipting á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra væri óhjákvæmileg. Sú niðurstaða var tilkynnt kæranda sama dag og ákvörðunin var tekin, það er 4. janúar 2023. Á grundvelli ákvörðunar MAST var tíu nautgripum slátrað 5. janúar 2023, 47 fjár aflífaðar og fargað 6. janúar 2023, um 45 hænum fargað 9. janúar 2023 og sex hrossum slátrað 11. janúar 2023.

Með bréfi, dags. 28. mars 2023, var ákvörðun MAST kærð til ráðuneytisins. Hinn 4. apríl 2023 óskaði ráðuneytið eftir umsögn MAST vegna málsins auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið. Umsögn MAST barst þann 26. apríl 2023. Kæranda var veittur frestur til andmæla vegna umsagnar MAST og bárust andmæli kæranda þann 25. maí 2023.

Þá óskaði ráðuneytið eftir frekari gögnum frá MAST, hvað varðar upplýsingar um það hvernig stofnunin reyndi að fá tilsjónarmann til þess að sjá um bæ kæranda á meðan hún dvaldist á sjúkrahúsi. Því til viðbótar óskaði ráðuneytið eftir gögnum varðandi þær ráðstafanir sem reynt var að grípa til áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Bárust þau svör til ráðuneytisins þann 5. október 2023.

Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Sjónarmið kæranda

Í stjórnsýslukæru kæranda, dags. 28. mars 2023, kemur fram að kærandi byggi á því að ákvörðun MAST sé ólögmæt og ógildanleg. Málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar við meðferð málsins og ákvarðanatöku.

Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við lög um velferð dýra nr. 55/2013. Skilyrði 1. mgr. 38. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt, það er að dýr hafi orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Telur kærandi það vera ágreiningslaust í fyrirliggjandi máli að allur búfénaður hennar hafi verið í góðu standi fyrir vörslusviptinguna. Því til viðbótar telur kærandi að aðgerðir MAST hafi ekki verið gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu eins og lagaákvæðið kveður á um. Að því sögðu telur kærandi að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið byggð á viðhlítandi réttarheimild fyrir þeim meiriháttar tilfinnanlegu og íþyngjandi ákvörðunum sem MAST tók og beri því að ógilda stjórnvaldsákvörðunina.

Þá byggir kærandi á því að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun hafi verið mjög íþyngjandi fyrir kæranda, bæði fjárhagslega og tilfinningalega án þess að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur. Þá telur kærandi að með hliðsjón af góðu ástandi á búfénaði hennar hafi MAST borið að beita vægari aðgerðum en gert var. Þá hafi stofnunin gert óréttmætar og óhóflegar kröfur til þeirra aðila sem voru tilbúnir að hjálpa til við búskap kæranda. Hafi stofnunin gert þá kröfu að aðilar þyrftu að bera ábyrgð á öllu búfé og þá m.a. einnig sauðburði sem annar aðili var þá þegar búin að taka að sér. Gerði stofnunin þannig óréttmætar og óhóflegar kröfur til þeirra aðila sem vildu hjálpa til við búskap kæranda. Stofnunin hafi þannig í raun girt fyrir að kæranda yrði veitt aðstoð við dýr sín á meðan hún dvaldist á sjúkrastofnun vegna meiðsla. Að því sögðu telur kærandi að MAST hafi farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til og beri af þeim sökum að fella umrædda ákvörðun úr gildi. 

Kærandi byggir einnig á því að brotið hafi verið á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísar kæranda þá í dóm héraðsdóms Vesturlands í máli nr. S-137/2013, sem varðaði meðferð kúa á kúabúi en þar kom fram að gripir hafi verið varanlega skaðaðir. Af hálfu MAST hafi í aðdraganda málsins verið farið mun vægar í sakirnar en gagnvart kæranda þrátt fyrir að hinir vörslusviptu gripir kæranda hafi verið í góðu lagi og ekki skaðaðir á nokkurn hátt. Að því sögðu hafi við hina kærðu stjórnvaldsákvörðun MAST ekki gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Að mati kæranda var brotið gegn rannsóknarreglu í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi að af yfirlýsingum sem liggja fyrir í málinu geti varla talist að stofnunin hafi rannsakað það með forsvaranlegum hætti hvort ekki hafi mátt koma kæranda til hjálpar með búfénað sinn á meðan hún dvaldist á sjúkrastofnun vegna meiðsla. Af þeim sökum ber einnig að ógilda hina kærðu stjórnvaldsákvörðun.

Kærandi bendir á að samkvæmt skoðunarskýrslum MAST, dagsettar 3. janúar 2023, var kæranda veittur frestur til að bæta úr þeim athugasemdum sem þar voru gerðar til 4. janúar 2023. Hins vegar hafi hin kærða stjórnvaldsákvörðun verið tekin af stofnuninni þann 4. janúar 2023 og sú ákvörðun tilkynnt kæranda samdægurs. Sá frestur sem stofnunin veitti kæranda til úrbóta var því ekki liðinn áður en stjórnvaldsákvörðunin var tekin. Með þessum framgangi telur kærandi að brotið hafi verið á rétti hennar og að því sögðu sé hin kærða stjórnvaldsákvörðun ólögmæt og beri því að ógilda.

Að lokum byggir kærandi á því að ákvörðunin sé haldin svo miklum göllum að hún skuli sæta ógildingu. Vísar kærandi m.a. til þess að heimilisfang kæranda hafi verið ranglega tilgreint. Með vísan til alls framangreinds telur kærandi að fella eigi úr gildi hina kærðu stjórnvaldsákvörðun MAST frá 4. janúar 2023.

Sjónarmið Matvælastofnunar

MAST byggir ákvörðun sína um vörslusviptingu á búfénaði kæranda sem tekin var 4. janúar 2023, á 1. mgr. 38. gr. dýravelferðarlaga nr. 55/2013. Telur stofnunin að eina skilyrðið fyrir beitingu greinarinnar sé að úrbætur þoli enga bið og telur stofnunin skilyrðið uppfyllt í máli þessu. Þá byggir stofnunin á að aflífun á dýrunum hafi verið framkvæmd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laganna þar sem engin úrræði voru til þess að halda dýrunum eða tryggja umsjá með þeim, hvorki af hálfu MAST né með því að fá tilsjónarmann.

MAST mótmælir því að stofnunin hafi ekki haft samráð við lögreglu við aðgerðirnar eins og skylt er skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Lögreglustjóranum á Suðurlandi var tilkynnt um aðgerðirnar. Bendir stofnunin á að enginn kvörtun hafi borist frá lögreglu um að skort hafi á samráð í þessu máli enda er ljóst að verkið var unnið á ábyrgð MAST en ekki á ábyrgð lögreglu.

Stofnunin mótmælir því að ákvörðunin hafi farið í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt reglunni skal aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þá skal þess gætt að ekki verði farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Hið lögmæta markmið sem stefnt var að í fyrirliggjandi máli hafi verið að tryggja að ábyrgur umráðamaður fengist til að sinna búskapnum í fjarveru kæranda. Á bæ kæranda var þó nokkur fjöldi dýra sem stóð eftir án þess að nokkur væri tiltækur til að taka við umráðum þeirra þegar kærandi forfallaðist. Slíkt telst vera alvarleg staða að mati MAST, enda var ekki unnt að hafa dýrin eftirlitslaus og án þess að litið væri eftir þeim. Þá hafði kærandi tilnefnt nokkra aðila til að annast dýrin. MAST kannaði hvort umræddir aðilar væru tilbúnir til að gerast umráðamenn dýranna í skilningi 7. töluliðar. 3. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013, það er gerast ábyrgir fyrir umsjá dýranna í fjarveru kæranda. Enginn var reiðubúinn til þess, hvorki formlega né óformlega, að bera ábyrgð á umsjá dýranna um óákveðinn tíma. Þá hafi verið kannað hvort hægt væri að ráða bústjóra á búið á kostnað kæranda en þær tilraunir báru ekki árangur. Þá voru yfirlýsingar mjög óljósar um hvort og hve lengi menn væru reiðubúnir að ganga í bústörf fyrir kæranda. Starfsmaður MAST átti mörg símtöl við ýmsa aðila en enginn þeirra var á þeim tíma tilbúinn til þess að gangast við þeirri ábyrgð. Var þá farið fram á að þeir staðfestu með tölvupósti hvaða aðstoð þeir væru reiðubúnir að veita. Enginn þessara viðmælenda var þó reiðubúinn til þess. Að lokum bendir stofnunin á að það lágu engar upplýsingar fyrir um að nágrannar kæranda hefðu verið reiðubúnir til þess að veita kæranda hjálparhönd og aðstoð þegar vörslusviptingin fór fram. Að því sögðu var það mat MAST að ekki væru til staðar aðilar sem gætu tryggt velferð dýranna á bæ kæranda á meðan hún dvaldist á sjúkrastofnun í kjölfar slyssins. Telur stofnunin að ekki hafi verið gerðar óréttmætar og óhóflegar kröfur til þeirra aðila sem vildu hjálpa til við búskap kæranda. Var það því mat stofnunarinnar að óhjákvæmilegt hafi verið að grípa til aðgerða í þágu dýravelferðar.

Þá áréttar MAST að þrátt fyrir að vörslusviptingin hafi verið ákveðin sama dag og kærandi hafði frest til þess að tilnefna mann í sinn stað hafi sú ákvörðun átt sér talsverðan aðdraganda. Stofnunin telur að það hafi verið nokkuð ljóst þann 4. janúar sl. að engin lausn á málinu væri í augnsýn. Þá hafi m.a. komið fram í skýrslunni frá 22. desember 2022 að kæranda var gert að tilnefna aðila sem tryggði að umhirða og verklag við búskapinn stæðist lágmarkskröfur fyrir lok ársins. Þar sem slíkt hafi ekki verið gert að mati MAST gátu aðgerðir ekki beðið lengur þann 4. janúar 2023.

Að öllu framangreindu virtu telur MAST að ákvörðun stofnunarinnar frá 4. janúar sl. hafi verið lögmæt. Bundnar hefðu verið vonir við að unnt væri að finna aðila til að sjá um dýrin en á endanum hafi verið ljóst að enginn aðili fékkst til að taka við þeim. Þá hafði MAST engin úrræði til þess að hýsa dýrin eða sinna þeim um ótilgreindan tíma.

Að mati stofnunarinnar hafði skapast neyðarástand á bæ kæranda enda var ekki unnt að hafa dýrin eftirlitslaus á bænum í fjarveru kæranda þar sem enginn var til staðar til að annast dýrin eða líta eftir þeim, brynna og fóðra og fyrirséð að aðstæður myndu strax verða með öllu óviðunandi. Þá bendir stofnunin á að aflífun og slátrun hafi staðið yfir í nokkra daga og voru starfsmenn stofnunarinnar reiðubúnir til þess að fresta aðgerðum ef umráðamaður myndi finnast sem gæti borið ábyrgð á velferð dýranna í fjarveru kæranda. Þar sem ekki fannst neinn umráðamaður til að taka við dýrunum á bænum telur stofnunin að óhjákvæmilegt hafi verið að vörslusvipta kæranda öllum bústofni sínum á grundvelli  1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra og færa hann til slátrunar á grundvelli 1. mgr. 37.gr. laganna.

Athugasemdir kæranda við umsögn Matvælastofnunar

Með bréfi dags. 25. maí sl. gerði kærandi athugasemdir við umsögn MAST frá 26. apríl 2023. Telur kærandi að hvort heldur sem talið verði að aflífun MAST hafi verið byggð á 1. mgr. 38. gr. eða 1. mgr. 37. gr. laga nr. 55/2013, hafi verið um ólögmæta stjórnvaldsaðgerð að ræða sem olli kæranda miklu fjártjóni og miska. Þá ítrekar kærandi mótmæli sín um að MAST hafi gert allt mögulegt til þess að fá aðila til að sinna búfénaði kæranda enda hafi með stjórnsýslukærunni verið lagðar fram yfirlýsingar fjölda aðila sem voru reiðubúnir til þess að veita hjálparhönd við búskap kæranda. Að því viðbættu bendir kærandi á að sér hafi ekki verið veittur andmælaréttur í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hvorki gagnvart ákvörðun stofnunarinnar um vörslusviptingu né heldur gagnvart ákvörðun MAST um að ráðstafa bústofni hennar til aflífunar.

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að ákvörðun MAST, dags. 4. janúar 2023, um að vörslusvipta kæranda bústofni sínum og færa hann til slátrunar á grundvelli  1. mgr. 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Í bréfi stofnunarinnar til kæranda kemur fram að í skýrslu úr eftirliti 3. janúar séu fimm frávik skráð, þar af tvö alvarleg. Alvarlegu frávikin sneru að því að á bæ kæranda væru tíu nautgripir, fjörtíu fjár og sex hross án umönnunar. Að beiðni MAST hafi kærandi tilnefnt aðila en enginn þeirra hafi verið tilbúinn til að gangast við þeirri ábyrgð að vera umráðamaður dýranna í fjarveru kæranda. Var það mat stofnunarinnar að ástandið á bænum hafi því verið með öllu óviðunandi með tilliti til dýravelferðar. Reynt hafi verið að ráða bústjóra en umleitanir stofnunarinnar hafi ekki borið árangur. Var kæranda því tilkynnt þann 4. janúar 2023 að með vísan til heimildar í 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra hafi MAST ákveðið að taka allan bústofninn úr vörslum kæranda frá og með þeim degi. Slátrun dýranna hófst 5. janúar og lauk 11. janúar 2023. Þrátt fyrir að búfénaðurinn hafi verið aflífaður verður að telja að kærandi hafi af því lögmæta hagsmuni að fá úr því skorið hvort rétt hafi verið staðið að vinnslu málsins og hvort aðgerðir MAST hafi verið lögmætar.

Samkvæmt 1. gr. laga um velferð dýra er markmið laganna að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu, meiðsli og sjúkdóma. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að fara vel með dýr og að umráðamaður beri ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lögin. Þá segir í 6. gr. laganna að ill meðferð dýra sé óheimil. Umráðamaður skal einnig tryggja að dýr fái góða umönnun svo sem með því að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu, sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð, sbr. 14. gr. laganna.

Kærandi byggir á því að ákvörðun MAST, dags. 4. janúar 2023, hafi verið ólögmæt og þar með ógildanleg. Þá hafi hin kærða ákvörðun ekki verið byggð á víðhlítandi réttarheimild og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar við meðferð málsins og ákvarðanatöku. Telur kærandi að brotið hafi verið á 10., 11., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Þá hafi frestur kæranda til úrbóta ekki verið virtur þar sem hin kærða stjórnvaldsákvörðun var tekin áður en fresturinn var liðinn og því telur kærandi að ógilda skuli ákvörðunina.

MAST byggir ákvörðun sína um vörslusviptingu dýranna hafi verið heimil á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra og að aflífun dýranna hafi verið heimil í kjölfarið á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laganna.

Vörslusvipting dýra er íþyngjandi ákvörðun sem er hluti af þvingunúrræðum sem MAST getur gripið til að framfylgja lögum um velferð dýra og því almennt ekki beitt nema nauðsyn sé til. Stjórnvöldum ber í hvívetna að gæta að almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga kveður til dæmis á um að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þá er vörslusvipting auk þess inngrip í atvinnu- og eignarréttindi umráðamanns dýrs sem eru stjórnarskrárvarin réttindi. Ljóst er að þegar ákvarðanir stjórnvalda varða svo mikilvæga hagsmuni og eru íþyngjandi fyrir hinn almenna borgara, líkt og þær ákvarðanir sem þetta mál snýr að, þarf m.a. að gæta að framangreindum sjónarmiðum. Enn fremur þurfa þær ákvarðanir að byggja á viðhlítandi réttarheimildum.

MAST byggir vörslusviptingu í máli þessu á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga um dýravelferð. Samkvæmt ákvæðinu er MAST heimilt að taka dýr úr vörslum umráðamanns þegar að úrbætur þola enga bið eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Slíkt skal vera gert í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu. Þá er MAST ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 38. gr. laganna. Þá segir að aðgerðir skuli framkvæmdar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu. Að mati ráðuneytisins verður þessi lagaregla ekki skilin með öðrum hætti en samkvæmt orðanna hljóðan.

Í gögnum málsins er ekki að finna staðfestingu þess að búfé á umræddum bæ hafi orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Í bréfi MAST til lögmanns kæranda frá 17. janúar 2023 kemur fram að ástand dýranna hafi verið í lagi þegar ákvörðun um vörslusviptingu og síðan aflífun var tekin en mat það svo að stefnt hafi í óefni vegna skorts á tilsjónarmanni eða umsjónarmanni. MAST hefur samkvæmt lögum um velferð dýra ýmis úrræði til að tryggja velferð dýra. Rétt er að stofnunin hafi ákveðið svigrúm til að meta hvaða aðgerðir eru best til þess fallnar hverju sinni en gæta þarf þess að íþyngjandi ákvarðanir gangi ekki lengra en nauðsyn krefur til að ná fram lögmætu markmiði. Gögn málsins bera ekki með sér að ástand dýranna hafi verið með þeim hætti, sbr. orðalag 1. mgr. 38. gr. laganna, að nauðsynlegt hafi verið að grípa til svo skjótra og varanlegra aðgerða án þess að gefa kæranda færi á að koma á framfæri athugasemdum við málsmeðferðina eða ráðstöfunina. Þá verður í gögnum málsins ekki séð að samráð eða samstarf hafi verið haft við lögreglu, líkt og kveðið er á um í ákvæði 38. gr. laganna. Að því sögðu verður það ekki séð að heimilt hafi verið að byggja vörslusviptingu í þessu máli á 38. gr. laga um velferð dýra þar sem skilyrði fyrir beitingu hennar hafi ekki verið uppfyllt. Í gögnum málsins vísar MAST til þess að aðgerðin hafi verið tilkynnt til lögreglu en ekki verður talið að slík tilkynning geti talist til samráðs eða samstarfs við lögreglu eins og skilyrði ákvæðisins kveður á um samkvæmt orðanna hljóðan.

Almennt fer um vörslusviptingar samkvæmt 37. gr. laga um velferð dýra. Samkvæmt ákvæðinu er MAST  heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests, og sér MAST um framkvæmd vörslusviptingar en er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu. Við vörslusviptingu skal MAST ákveða hvort dýrin skuli flutt burt eða þeim haldið þar sem þau eru. Þá er MAST heimilt að láta aflífa dýr sem stofnunin hefur umráð yfir vegna vörslusviptingar að liðnum tveimur sólarhringum takist hvorki stofnuninni né eiganda að finna viðeiganda aðstæður eða aðbúnað fyrir dýr. Ljóst er að við ákvörðun um vörslusviptingu í máli þessu var ekki farið að málsmeðferðarreglum sem kveðið er á um í 37. gr. laganna, enda fékk kærandi ekki tækifæri til að koma á framfæri andmælum líkt og kveðið er á um í greininni. Verður því umrædd aðgerð ekki byggð á ákvæðum 37. gr. laganna. Aflífun dýranna hófst 5. janúar 2023, daginn eftir að ákvörðun var tekin. Hafði kærandi því ekki raunhæfa möguleika til að andmæla ákvörðuninni eða þeim aðgerðum sem ráðist var í á grundvelli hennar. Í skoðunarskýrslu frá 3. janúar 2023 er frestur til úrbóta tilgreindur til 4. janúar 2023. Ljóst er að ákvörðun um vörslusviptingu og síðan aflífun dýranna var tekin á meðan kærandi var enn innan tilgreinds frests til úrbóta samkvæmt skoðunarskýrslu og var þannig ekki gefið færi á að nýta þann frest sem þó hafði verið veittur. Telur ráðuneytið að þannig hafi verið brotið gegn andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Reglan um andmælarétt er enn fremur nátengd rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem að mál verður alla jafna ekki talið fullrannsakað fyrr en allar nauðsynlegar upplýsingar frá málsaðila liggja fyrir. 

Í umsögn MAST kemur fram að leitað hafi verið að umsjónarmanni eða aðila til að sinna búrekstri í fjarveru kæranda. Við úrlausn málsins óskaði ráðuneytið eftir nánari upplýsingum um þennan þátt málsins. Í umsögn MAST í máli þessu er vísað til símtala við ýmsa aðila en enginn þeirra hafi verið tilbúinn til að gangast við ábyrgð á dýrunum. Ekki verður séð að þau símtöl hafi verið skráð og þau eru ekki hluti af gögnum málsins. Slíkt er ekki í samræmi við 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar kemur fram að við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt og skyldu manna ber stjórnvöldum að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum. Ekki er því unnt að staðfesta hvort í reynd hafi verið fullreynt að fá umsjónarmann til að taka við búinu eða hvernig var eftir ábendingu aðila eða að frumkvæði stofnunarinnar leitað eftir tilsjónarmanni eða umsjónarmanni fyrir dýrin.

Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að ekki hafi verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins né ákvæðum upplýsingalaga varðandi skráningu málsgagna. Þá hafi skilyrði 1. mgr. 38. gr. laga um velferð dýra ekki verið uppfyllt að mati ráðuneytisins. Enn fremur sé ekki unnt að líta svo á að aðgerðir hafi með fullnægjandi hætti verið byggðar á grundvelli 37. gr laganna þar sem ekki var gætt að þeim málsmeðferðarreglum sem kveðið er á um í greininni.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 4. janúar 2023, um vörslusviptingar á búfé kæranda á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, er hér með felld úr gildi.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum